Satt og logið um ESB
1.3.2012 | 23:44
Margt er sagt um ESB sem einfaldlega ekki er satt og oft byggt á misskilningi, hér er tilraun til að afrugla þá umræðu, allar tilvísanirnar eru í hlutlausa aðila.
Ef Ísland gengur í ESB falla tollar niður á vörum sem pantaðar eru á netinu, innan ESB?
RÉTT! og líka á þeim vörum sem við kaupum sjálf í útlöndum og komum með heim sjá nánar á Evrópuvefnum hér.
ESB er með her og ef Ísland gengur inn þurfa börnin mín að ganga í hann?
Nei, langt í frá. ESB er ekki með her svo það er engin herskylda, sjá nánar hér.
Ef Ísland gengur í ESB, missum við þá sjálfstæðið?
Nei, enginn hefur fært rök fyrir því að þau 27 ríki Evrópusambandsins séu ekki sjálfstæði ríki. Allir alþjóðlegir samningar kalla á ákveðið framsal á valdi af hálfu þeirra sem kjósa að taka þátt í slíku samstarfi, en í dag tekur Ísland upp 75-80% af allri löggjöf sem ESB setur (og á við Ísland) í gegnum EES samninginn. En Ísland en á ekki sæti við borðið þar sem ákvarðaninar eru teknar og það myndi breytast við inngöngu í ESB þar sem íslenskir ráðamenn fengu sæti við öll borð þar sem teknar eru ákvarðanir. Sjá hér, nýlega skýrslu um fullveldi og EES samninginn í Noregi, þar sem fjallað er um hinn gríðalega lýðræðishalla sem felst í EES samningnum. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að Noregur hefur tekið upp meiri ESB löggjöf (um 75%) en sum aðildaríkjanna ESB!
ESB bannar bogna banana.
Ekki satt og hefur aldrei gert, ekki heldur bognar gúrkur sjá svar á Evrópuvefnum hér.
Ef Ísland gengur í ESB lækkar kostnaður við húsnæðislánin?
Já, Rétt! Ný úttekt frá ASÍ sýnir fram á að við myndum greiða miklu lægri afborganir af lánunum okkar en við gerum í dag og í styttri tíma! Sjá frétt á mbl.is í febrúar um málið. Í ESB þekkjast ekki verðtryggðlán líkt og hér.
ESB bannar veiðar á rjúpu.
Nei ekki satt. Það er undir hverju aðildarríki að ákveða slíkt sjá svar á Evrópuvefnum hér.
ESB bannar börnum að leika sér með segulstál, leikfangavaraliti, partýflautur og blöðrur?
Nei, engar slíkar reglur, en ESB er með rosalega góðar reglur sem tryggja að leikföng sem seld eru í sambandinu séu örugg sjá svar á Evrópuvefnum hér.
ESB bannar fullorðnum að fara með fleiri en tvö börn í sund í einu?!
NEI, nei, nei, bara della. Sjá svar hér
Ef við göngum í ESB, lækkar þá verð á matvælum?
Rétt! Við inngöngu Íslands í ESB falla niður tollar á vörum og landbúnaðarafurðum frá ríkjum ESB falla niður. Því má, samkvæmt nýrri skýrslu, gera ráð fyrir að verð á kjúklingum, eggjum og svínakjöti lækki um 40 -50%, og að verð á mjólkurafurðum lækki um 25%.
Sjá nánar hér.
ESB bannar Cheerios?
Nei, algjör vitleysa sjá svar hér.
Nei, ekkert ESB ríki er án bænda. Áhrif aðildar á landbúnaðinn verður að öllum líkindum mismunandi eftir greinum. Helsta breytingin er sú að íslenskir bændur fengju styrki í gegnum ESB landbúnaðarkerfið en það íslenska. Með aðild eykst samkeppnin því þá verður innflutningur frá ESB ríkjunum á landbúnaðarafurðum gerð frjáls. Það þýðir að íslenskir bændur þurfa að standast þá samkeppni. Þó eru töluverðar líkur á að í aðildarsamningnum verði samið um sérstakar aðstæður íslenskt landbúnaðar eins og gert var t.d. í Finnlandi og víðar. Með aðild geta íslenskir sauðfjárbændur flutt sitt kjöt út óhindrað til ESB ríkjanna en á síðasta ári kláruðu þeir útflutningskvótann sitt mjög hratt og óskuðu sérstaklega eftir stærri útflutningskvóta til ESB svo sóknarfærin eru ótæmandi. Þær greinar sem líkur eru á að gætu átt erfitt með að mæta aukinni samkeppni eru alifuglarækt og svínarækt, um þetta ber þó mönnum ekki saman.
Hér má sjá nokkur svör um landbúnað á Evrópuvefnum.
Ef við göngum í ESB, fyllist hér þá allt af erlendum togurum sem þurrka upp fiskimiðin okkar?
Nei. Innan Evrópusambandsins byggist úthlutun veiðiheimilda á veiðireynslu árin fyrir aðild. Ekkert ríkja ESB hefur hefur veiðireynslu á miðunum umhverfis Ísland undanfarna þrjá áratugi. Þetta þýðir að Ísland mun eftir aðild að ESB sem fyrr fara með allan kvóta í íslenskri lögsögu. Til þess að svo verði þarf enga undanþágu. Samkvæmt reglum ESB á aðeins Ísland rétt á kvóta á miðunum umhverfis Ísland.
Sjá nánar um áhrif aðildar á sjávarútveginn hér.
höfundur: Bryndís Ísfold
Athugasemdir
Hér er mörgum atriðum mokað inn í eina samantekt og er líklega ætlað að hafa sigursæl áhrif, en hér er þó mörg falstúlkunin í reynd, og stór verða strikin í þennan "reikning", er upp verður staðið. Það alvarlegasta snertir fullveldi landsins og stjórn okkar og nýtingarrétt á fiskveiðum og auðlindum okkar, og á það vil ég drepa hér í fyrsta innleggi.
I.
Lykillinn að því, hvernig lýðveldinu stafar stórfelldur háski af inntöku (accesion) í Evrópusambandið, er sjálfur inntökusáttmálinn (accession treaty, oftast kallaður hér "aðildarsamningur" – orð sem um of gefur í skyn, að þar séu fyrst og fremst samningsatriði nýja meðalimaríkisins og sambandsins; en það er rangt; mest efnið í inntökusáttmála er samhljóða öðrum slíkum inntökusáttmálum Evrópusambandsins og annarra meðlimaríkja, enda hafa þau oft verið saman í kippu um inntökusáttmála, t.d. Finnland og Svíþjóð með Austurríki o.s.frv.).
II.
Nefndur inntökusáttmáli felur í sér GRUNDVALLANDI löggjafarvalds-afsal til Evrópusambandsins. Þar er skýrt kveðið á um, að nýja meðlimaríkið meðtaki alla sáttmála og allt lagaverk Evrópusambandsins, en ekki aðeins það sem nú er til, heldur gervalla nýja löggjöf þar, sem á eftir að koma til. (Sjá nánar HÉR og Esb-frumheimild, þ.e. inntökusáttmála Finnlands, Svíþjóðar o.fl. ríkja, HÉR: eur-lex.europa.eu/en/treaties/dat/11994N/htm/11994N.html#0001010001.)
Eins og þetta sé ekki nóg, bætist annað og enn verra við: Öll lög viðkomandi lands, þau sem rekast kunna á Evrópusambands-lögin, VÍKJA fyrir þeim síðarnefndu – landslögin, bæði nýleg, ævaforn og ókomin, lúta í lægra haldi í þeim tilfellum: verða ógild! Þetta er einfaldlega vegna þess, að Esb-lögin hafa FORGANG og ýta hinum frá, sem samþýðast þau ekki. (Sama heimild.)
Til að hnykkja enn meir á um þetta, tekur inntökusáttmálinn ennfremur fram, að túlkunarvaldið um það, hvort Esb-lög og landslög rekist hver á annars horn, þ.e. samrýmist ekki, er falið Evrópusambandinu á hendur – þar séu túlkunarferli sem þetta skuli falla undir. Yrði ágreiningur um þetta, myndi Evrópusambandsdómstóllinn hafa þar æðsta vald, en Hæstiréttur Íslands ekkert.
III.
Ofangreindar meginreglur um framsal fullveldisins á löggjafarsviðinu til Evrópusambandsins hafa síðan með árunum stórfelld áhrif á öllum sviðum þjóðfélagsins, m.a. um lífshagsmuni okkar á sviði frumatvinnuvega og sameiginlegra þjóðarauðlinda; þar undir falla m.a. fiskistofnarnir, sjávarútvegurinn, orkulindir í jörðu og undir hafsbotni.
Áður en að þeim er sérstaklega vikið, skal því bætt við um löggjöfina, að síðustu merkin um aðkomu innlends löggjafarvalds að löggjöf ættaðri frá Brussel og Strassborg (frá löggjafarsamkundum Esb.: ráðherraráðinu og Esb-þinginu) myndu HVERFA við inntöku Íslands í Evrópusambandið, þ.e.a.s.: Alþingi fengi þar EKKERT hlutverk og enga aðkomu og heldur ekki forseti lýðveldisins: löggjöf frá Evrópusambandinu færi ALDREI um hendur hans, eins og lög frá Alþingi gera hins vegar og þar með talin lög sem innfæra hér EES-tilskipanir um margvísleg mál; og í þriðja lagi hefði þjóðin EKKERT færi á neinni aðkomu að þessum lögum, eins og hún hefur aftur á móti að löggjöf Alþingis, ef forsetinn synjar þeim samþykkis og skýtur málinu til þjóðaratkvæðis, eins og gerðist tvívegis í Icesave-málinu. ENGIN Esb-lög færu undir þjóðaratkvæði, nema það ólíklega gerðist, að það yrði ákveðið úti í Brussel og Strassborg með einhver tiltekin lög.
(Frh.)
Jón Valur Jensson, 2.3.2012 kl. 03:37
Miklir einfeldningar er þessir menn. Ef mann kalla það sjálfstæði að gangast undir lög annarra þjóða þá er nú bágt í heilabúinu. Ef menn falla fyrir þeirri endaleysu að láta telja sér trú að það sé sjálfstæði að vera skildugur að nota lög ESB þá er fólk hreinlega heimskt.
Ef Ísland gengur í ESB, missum við þá sjálfstæðið?
Nei, enginn hefur fært rök fyrir því að þau 27 ríki Evrópusambandsins séu ekki sjálfstæði ríki.
Valdimar Samúelsson, 2.3.2012 kl. 06:10
Er nú ekki eitthvað bogið við þessar "staðreyndir"? Ef það er rétt sem haldið er fram í upptalningunni að ofan að við getum ekki haft verðtryggingu áfram vegna þess að hún þekkist ekki í ESB þá hlýtur það að merkja að við ráðum engu um það sjálf, heldur sé það ákvörðun ESB. Og hvernig getum við haldið fullu sjálfstæði ef ESB tekur, gegn okkar vilja, af okkur verðtrygginguna sem er ákveðin með íslenskum lögum. Hvernig höldum við sjálfstæðinu ef við getum ekki haft okkar lög eða ólög áfram?
Þannig að fyrirsögnin á blogginu "Satt og logið um ESB" á vel við. Einhverju er greinilega logið í upptalningunni. Hvort eitthvað annað sem þar kemur fram er satt veit ég ekki.
Jón Pétur Líndal, 2.3.2012 kl. 11:14
Það er leiðinlegt að sjá að fleiru er logið hér í blogginu en ég benti á í síðustu athugasemd. Fullyrt er að verð á "kjúklingum, eggjum og svínakjöti lækki um 40 -50%, og að verð á mjólkurafurðum lækki um 25%". Vísað er í skýrslu þessu til stuðnings. Þegar maður kíkir á skýrsluna sést strax að í henni er verið að reikna út frá ævagömlum tölum og því hefur þessi tilvísaða skýrsla enga þýðingu lengur. Hún byggir á löngu úreltum tölum. Hér http://epp.eurostat.ec.europa.eu/statistics_explained/index.php/Comparative_price_levels_for_food,_beverages_and_tobacco er hins vegar á vefsíðu hagstofu ESB ágætt yfirlit um matvælaverð í ESB og fleiri löndum. Þar má m.a. sjá að verð á kjötvörum, fiski, eggjum, mjólk og osti er undir meðalverði í ESB löndunum. Sumt af þessu langt undir meðalverði. Það er ólíklegt að við inngöngu í ESB lækki verð á þessum vörum enn frekar á Íslandi, eða hvaða rök eru fyrir því? Varla er hægt að lækka verðið með því að kaupa dýrari sambærilegar vörur í ESB og flytja þær til Íslands, bæta við innkaupsverðið flutningskostnaði og selja þær svo ódýrar hér en þær kosta í ESB?
Þegar menn ræða um kosti og galla ESB aðildar væri gott að notaðar væru nýjustu fáanlegar upplýsingar. Afstaða manna til ESB getur varla snúist um að leiðrétta eitthvað sem einu sinni var, heldur hlýtur hún að snúast um það sem framundan er og samanburð við það sem við höfum í dag.
Jón Pétur Líndal, 2.3.2012 kl. 11:39
Ég endurtek hér síðustu athugasemd, linkur féll niður svo ég set hann hér aftur.
Það er leiðinlegt að sjá að fleiru er logið hér í blogginu en ég benti á í síðustu athugasemd. Fullyrt er að verð á "kjúklingum, eggjum og svínakjöti lækki um 40 -50%, og að verð á mjólkurafurðum lækki um 25%". Vísað er í skýrslu þessu til stuðnings. Þegar maður kíkir á skýrsluna sést strax að í henni er verið að reikna út frá ævagömlum tölum og því hefur þessi tilvísaða skýrsla enga þýðingu lengur. Hún byggir á löngu úreltum tölum. Hér er hins vegar á vefsíðu hagstofu ESB ágætt yfirlit um matvælaverð í ESB og fleiri löndum. Þar má m.a. sjá að verð á kjötvörum, fiski, eggjum, mjólk og osti á Íslandi er undir meðalverði í ESB löndunum. Sumt af þessu langt undir meðalverði. Það er ólíklegt að við inngöngu í ESB lækki verð á þessum vörum enn frekar á Íslandi, eða hvaða rök eru fyrir því? Varla er hægt að lækka verðið með því að kaupa dýrari sambærilegar vörur í ESB og flytja þær til Íslands, bæta við innkaupsverðið flutningskostnaði og selja þær svo ódýrar hér en þær kosta í ESB?
Þegar menn ræða um kosti og galla ESB aðildar væri gott að notaðar væru nýjustu fáanlegar upplýsingar. Afstaða manna til ESB getur varla snúist um að leiðrétta eitthvað sem einu sinni var, heldur hlýtur hún að snúast um það sem framundan er og samanburð við það sem við höfum í dag.
Jón Pétur Líndal, 2.3.2012 kl. 11:43
Þetta eru mjög góðar efnislegar athugasemdir hér og mikill fengur að þessu frá Jóni Pétri Líndal. Feginn er ég að hann setti inn seinni athugasemdina aftur, ekki aðeins með tenglinum blálitaða, heldur líka með þessari setningu sinni, fyllri og skýrari en hún var, því að orðin sem ég feitletra hér höfðu ekki verið með hið fyrra sinnið: "Þar má m.a. sjá að verð á kjötvörum, fiski, eggjum, mjólk og osti á Íslandi er undir meðalverði í ESB löndunum."
Mjög algengt hefur verið að sjá á evropa.blog.is vitnað í villandi framsetningu Evu Heiðu Önnudóttur um að vöruverð hér eigi eftir að "lækka [eftir inntöku landsins í Esb.] "um allt að ..." svo og svo mörg prósent, en engin skýr rök fylgt máli, og af upplýsingum Jóns Péturs blasir einmitt allt annað við.
Jón Valur Jensson, 2.3.2012 kl. 13:06
Þessi samantekt hér að ofan er mjög villandi og segir bara hálfa söguna. Veit ekki hvort höfundur(dar) sjá ekki lengra eða eru af ásetningi að reyna að villa um fyrir lesendum.
Hér eru helstu atriðin:
"Ef Ísland gengur í ESB falla tollar niður á vörum sem pantaðar eru á netinu, innan ESB?
RÉTT! – og líka á þeim vörum sem við kaupum sjálf í útlöndum og komum með heim – sjá nánar á Evrópuvefnum hér."
- En Ísland getur líka ákveðið á eigin spýtur að fella niður alla tolla á aðkeyptum vörum. Munurinn er sá að utan ESB getum við fellt niður tolla á vörum frá öllum löndum, en innan ESB verðum við að borga tolla á vöru frá löndu utan ESB, í samræmi við reglur sambandsins. ESB er opið inn á við, en með mikla tollamúra út á við.
Sjalfstætt Ísland hefur s.s. getuna, ef viljinn er til staðar, til að fella niður alla tolla einhliða.
"ESB er með her og ef Ísland gengur inn þurfa börnin mín að ganga í hann? Nei, langt í frá. ESB er ekki með her svo það er engin herskylda, sjá nánar hér."
- Þetta er ekki allskostar rétt, eða alltént er ekki hægt að fullyrða um að ástandið verði um alla tið það sama og það er í dag. Þeir sem rýna hvað best í þróun ESB myndu segja að sambandið sýni æ sterkari merki sameiginlegrar hernaðarstefnu, og æ sterkari merki ríkisvalds.
"Ef Ísland gengur í ESB, missum við þá sjálfstæðið?
Nei, enginn hefur fært rök fyrir því að þau 27 ríki Evrópusambandsins séu ekki sjálfstæði ríki."
- Hér mætti gjarnan skilgreina "sjálfstæði" ögn betur. Telja má upp ótalmörg dæmi um framferði ESB undanfarið þar sem gripið er fram fyrir lýðræði og stjórnvöldum í aðildarlöndum. Nýlegar hrókeringar á Ítalíu og Grikklandi eru gott dæmi. Kosningar um "stjornarskrá" ESB annað gott dæmi.
"ESB bannar bogna banana.
Ekki satt og hefur aldrei gert, ekki heldur bognar gúrkur"
- Það er rétt að það er gróusaga að ESB banni of bogna banana, hins vegar er sambandið óþreytandi við að dæla út alls kyns reglum og kvöðum, sem leggjast mjög þungt á iðnaði og framleiðslu og hækka þröskuldinn inn í alla geira. Fleiri reglur þýða minna frelsi og minna val, og neytandinn ber alltaf kostnaðinn á endanum. Embættismennirnir munu aldrei hætta að semja æ fleiri reglur, enda réttlæta reglurnar störf þeirra og laun.
"Ef Ísland gengur í ESB lækkar kostnaður við húsnæðislánin?
Já, Rétt! Ný úttekt frá ASÍ sýnir fram á að við myndum greiða miklu lægri afborganir af lánunum okkar en við gerum í dag og í styttri tíma!"
- Háir vextir á Íslandi eru mikið til heimagerður vandi, sem má skrifa á eyðslusamt velferðarríki, undarlega hagstjórn og peningastjórn, og reglur um ávöxtun lifeyrissjóða. Það er hægt að laga þetta með einu pennastriki á Alþingi ef viljinn er fyrir hendi.
"Ef við göngum í ESB, lækkar þá verð á matvælum?
Rétt! Við inngöngu Íslands í ESB falla niður tollar á vörum og landbúnaðarafurðum frá ríkjum ESB falla niður. Því má, samkvæmt nýrri skýrslu, gera ráð fyrir að verð á kjúklingum, eggjum og svínakjöti lækki um 40 -50%, og að verð á mjólkurafurðum lækki um 25%."
- Aftur, það má alveg lækka þessa tolla einhliða, nema hvað opna líka á innflutning frá löndum utan ESB. Væri ekki gaman að flytja lika inn tollalaust nautakjöt fra Argentínu og kalkúna frá Bandaríkjunum?
"Ef Ísland gengur í ESB þurrkast bændastéttin út?
Nei, ekkert ESB ríki er án bænda. Áhrif aðildar á landbúnaðinn verður að öllum líkindum mismunandi eftir greinum. Helsta breytingin er sú að íslenskir bændur fengju styrki í gegnum ESB landbúnaðarkerfið en það íslenska"
- Hér er gengið út frá því að ríkisstyrkir við landbúnað séu af hinu góða. Það er alrangt. Ríkisstyrkir og ríkisafskipti af landbúnaði gera landbúnaðinn óhagkvæman, kæfa nýsköpun og þróun, gera bændur fátæka og láta neytendur borga dýrara verð.
Best er að hætta öllum afskiptum af landbúnaði, og það væri sama sem ómögulegt innan ESB.
"Ef við göngum í ESB, fyllist hér þá allt af erlendum togurum sem þurrka upp fiskimiðin okkar?
Nei. Innan Evrópusambandsins byggist úthlutun veiðiheimilda á veiðireynslu árin fyrir aðild."
- Það á ekki að skipta máli hver veiðir fiskinn. Það sem skiptir máli er að kvótinn sé ekki gefinn eftir e-i pólitík. Kvóta ætti ekki að vera úthlutað gefins til fyrirtækja og sveitarfélaga. Allur kvóti ætti að vera seldur á uppboðsmarkaði, t.d. árlega, og koma í hlut hæstbjóðenda hvort sem það eru íslenskar útgerðir eða spænskar. Arðurinn af sölunni ætti svo að fara beint inn á bankareikning íslenskra ríkisborgara, og myndi sennilega nema 100 til 300 þús krónum árlega á haus, eða 400 þús til 1.2 milljónum á 4ra manna fjölskyldu.
Promotor Fidei, 2.3.2012 kl. 14:11
Fengur er að þessu líka frá "Promotor Fidei" (þetta er heiti, sem Hinrik VIII tók sér á siðaskiptatímanum, meðan hann taldi sig kaþólskan, og hefur verið borið síðan á eftir titlum enska/brezka þjóðhöfðingjans; en hver þessi "Promotor Fidei" er, veit ég ekki!). Gríp niður í þessu með stuttum athugasemdum:
1) Tollamálin. a) Við gátum afnumið ýmis gjöld á tölvur vegna fullveldis okkar um þau mál, gerðum það og efldum þar með tölvugeirann hér og tölvuvæðingu almennings. Við inngöngu í Esb. yrðum við að hækka sum þeirra gjalda aftur vegna innflutnings frá löndum utan Esb., m.a. Japan, Suður-Kóreu og Bandaríkjunum. – b) Evrópusambandið er með tollmúra-vernd gagnvart innflutningi bíla frá Bandaríkjunum og öðrum löndum utan Esb., en liðkar með tollfrelsi fyrir eigin (oft lakari) framleiðslu. Nú er okkur í sjálfsvald sett að lækka tolla að mun á þessum vörum – og löngu kominn tími til gagnvart t.d. Bandaríkjunum.
2) Hervæðingar- og herskyldumál. Í samantekt sinni afgreiðir Bryndís Ísfold þetta í snatri, en virðist gersamlega ómeðvituð um AFAR OPNAR VALDHEIMILDIR í Lissabon-sáttmálanum einmitt um þessi varnar-, hernaðar- og öryggismál, ásamt kröfum eða tilætlun þar um SAMSTÖÐU Esb-ríkjanna í þeim efnum.
3) Sjálfstæðis- og fullveldismál. a) Auk dæmanna frá Promotor Fidei má nefna, að nú er Evrópusambandið að hamast í Ungverjum, þar sem ný stjórnarskrá var samþykkt með meira en 2/3 þingmeirihluta, og vill láta þá breyta þeim greinum, allt eftir höfði Brusselvaldsins! – b) Nýjar fréttir hafa borizt af ummælum forseta Evrópusambandsins, Hermans van Rompuy, sem styðja nú ekki beinlínis staðhæfingar Bryndísar Ísfoldar. Í leiðara um þetta í Mbl. í gær (Þjóðþingin sett af) segir m.a.:
"Forseti Evrópusambandsins, Herman van Rompuy, hefur nú upplýst hvert hlutverk þjóðþinga aðildarríkjanna er. Hann segir að þau séu ef til vill ekki í formlegum skilningi en að minnsta kosti pólitískt öll „orðin að Evrópustofnunum“. Þetta kom fram á fundi í fyrradag og hann skýrði mál sitt með því að ákvarðanir þjóðþinganna hefðu í vaxandi mæli þýðingu fyrir önnur aðildarríki. Og hann viðurkenndi, ólíkt ráðamönnum hér á landi, að þessi þróun drægi úr fullveldi aðildarríkjanna.
Rompuy sagði þjóðþingin halda fullveldi sínu í ríkisfjármálum, en aðeins ef ákvarðanir þeirra ógna ekki fjármálalegum stöðugleika heildarinnar. Evruríkin yrðu að hafa samráð við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og önnur aðildarríki áður en þau tækju stærri ákvarðanir sem gætu haft áhrif á hin ríkin.
Skýrar getur forsetinn tæpast talað um minnkandi völd þjóðþinga aðildarríkjanna í eigin málum. Þau fá að taka ákvarðanir, en aðeins ef þær samræmast vilja framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þau eru með öðrum orðum ekki ráðandi í eigin málum.
Íslendingar virðast almennt átta sig á þessu og líst ekki á blikuna. Í nýrri skoðanakönnun sem Samtök iðnaðarins létu gera fyrir sig kemur fram að einungis fjórðungur landsmanna er hlynntur aðild að Evrópusambandinu. ..." (Tilvitnun lýkur.)
Jón Valur Jensson, 2.3.2012 kl. 14:57
PS. Evrópusambandið hefur m.a.s. í hótunum við Ungverja vegna þessa ágreinings síns við stjórnarskrá þeirra!
Jón Valur Jensson, 2.3.2012 kl. 15:03
Ég hafði enn ekki rætt hér um sjávarútvegsmálin, og það litla, sem Promotor Fidei skrifaði um þau, felur ekki í sér krufningu á stefnu Esb. í fiskveiðimálunum. Má virðast aðkallandi, að hér sé birtur eftirfarandi afar upplýsandi kafli um þau (enda er umfjöllun Bryndísar Ísfoldar hér ofar í mýflugumynd og í raun gagnslaus með öllu):
Textinn er í verkinu Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, með undirtitlinum "Skýrsla Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu", forsætisráðuneytið, Rv. 2007, bls. 96–7 (allar feitletranir mínar):
"Sjávarútvegsstefnan fellur undir landbúnaðarkafla Rómarsáttmálans, en í 32. gr. hans segir að með landbúnaðarafurðum sé átt við afurðir jarðræktar, búfjárræktar og fiskveiða, sem og afurðir af fyrsta vinnslustigi er tengist þessum afurðum beint. Markmið hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu eru í grundvallaratriðum þau sömu og markmið landbúnaðarstefnunnar sem kveðið er á um í 33. gr. sáttmálans, en þar segir að stefnt skuli að því að auka framleiðni með því að stuðla að tækniframförum og hagkvæmari nýtingu framleiðsluþátta, sérstaklega vinnuafls. Jafnframt skuli tryggja þeim er starfa við greinina sanngjörn lífskjör, tryggja jafnvægi og stöðugleika á mörkuðum og sanngjarnt verð til neytenda.
Í grunnreglugerð ESB um sjávarútvegsmál, reglugerð nr. 2037/2002, segir jafnframt að hin sameiginlega sjávarútvegsstefna skuli tryggja nýtingu lifandi sjávarauðlinda sem haldi uppi sjálfbærum efnahagslegum, umhverfislegum og félagslegum skilyrðum.242
Hin sameiginlega sjávarútvegsstefna ESB, sem samþykkt var árið 1983 og síðast endurskoðuð árið 2002, byggist í meginatriðum á fjórum meginþáttum; fiskveiðistjórnun og verndun, sameiginlegu markaðsskipulagi, sameiginlegri uppbyggingarstefnu og samningum við önnur ríki.243
Lagasetningarvald á sviði sjávarútvegs er fyrst og fremst hjá stofnunum ESB og aðildarríkin hafa framselt vald til stefnumótunar á sviði sjávarútvegs til sambandsins.244 Afleidd löggjöf á þessu sviði þarf aukinn meirihluta atkvæða í ráðherraráðinu til að hljóta samþykki, en Evrópuþingið hefur eingöngu ráðgefandi hlutverk á þessu sviði.245
[TAKIÐ VEL EFTIR ÞESSU (innskot JVJ):] Samkvæmt meginreglunni um jafnan aðgang hafa öll aðildarríki ESB ótvíræðan rétt fyrir fiskiskip sín til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 mílna markanna.246
Sá aðgangur er þó ekki ótakmarkaður því reglur sambandsins um ákvörðun hámarksafla og úthlutun aflaheimilda til aðildarríkjanna fela í sér „veigamikla takmörkun á meginreglunni um jafnan aðgang“ þar sem fiskiskipum er einungis heimilt að veiða á þeim svæðum og úr þeim stofnum sem aflaheimildirnar eru bundnar við.247
[Bls. 97:]
Aðildarríkjunum er einnig heimilt að takmarka veiðar á svæðinu út að 12 mílum við eigin skip,248 auk þess sem veiðar á nokkrum öðrum svæðum eru takmarkaðar vegna verndarsjónarmiða.249 Þá er aðildarríkjum heimilt að grípa til neyðarráðstafana og setja reglur til verndar fiskistofnunum þegar ákveðnir fiskistofnar eða fiskimið eru í verulegri hættu og talið er að tafir myndu leiða til tjóns.250 Loks ber að nefna að aðildarríkjum er heimilt að grípa til ráðstafana sem miða að verndun og stjórnun fiskistofna þegar um er að ræða fiskistofna sem eru staðbundnir og varða eingöngu skip frá viðkomandi aðildarríki. Þessar ráðstafanir verða þó að vera í samræmi við markmið sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar og mega ekki ganga lengra en löggjöf ESB segir til um.251
NEÐANMÁLSGREINAR við tilvitnaða textann hér fyrir ofan, í sama riti:
242 Council Regulation No 2371/2002 of 20 December 2002 on the conservation and sustainable exploitation of fisheries resources under the Common Fisheries Policy. Reglugerðir ESB um sjávarútvegsmál er að finna á vefslóðinni: http://ec.europa.eu/fisheries/legislation/basic_en.htm
243 About the Common Fisheries Policy. Managing a common resource. Á vefsíðunni: http://ec.europa.eu/fisheries/cfp_en.htm
244 Sbr. m.a. 5. gr., 6. gr. og 7. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.
245 Sbr. 2. mgr. 37. gr. Rómarsáttmálans. Hingað til hafa eingöngu verið settar reglugerðir á sviði sjávarútvegs, en ekki tilskipanir. Það er meginregla að stofnanir ESB hafa valdheimildir til að setja reglur á sviði sjávarútvegs. Í dómi gegn Bretlandi nr. 804/79 kom fram að þótt ráðið hefði ekki sett reglur á því sviði sem valdframsal aðildarríkjanna tekur til hefðu aðildarríkin ekki heimild til að setja reglur á viðkomandi sviði. Því var einnig slegið föstu að vald til þess að setja reglur um verndarráðstafanir á hafinu féllu að öllu leyti undir valdsvið stofnana ESB en ekki undir valdsvið aðildarríkjanna.
246 Sbr. 17. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.
247 Óttar Pálsson og Stefán Már Stefánsson (2003), bls. 53-54.
248 Sbr. 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 17. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.
249 Sérstakar reglur gilda t.d. í kringum Hjaltlandseyjar og Orkneyjar og um veiðar í Miðjarðarhafi og Eystrasalti.
250 Sbr. 8. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002. Þessar ráðstafanir mega ekki vara lengur en 3 mánuði og þarf aðildarríki m.a. að tilkynna þær til framkvæmdastjórnarinnar, sem þarf að samþykkja verndaraðgerðirnar, breyta þeim eða hafna innan 15 vinnudaga frá tilkynningu.
251 Sbr. 10. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.
TILVITNUN LÝKUR.
Og hér er margt fyrir Esb-sinnana að læra og tileinka sér!
Jón Valur Jensson, 3.3.2012 kl. 04:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.