Satt og logið um ESB

Margt er sagt um ESB sem einfaldlega ekki er satt og oft byggt á misskilningi, hér er tilraun til að afrugla þá umræðu, allar tilvísanirnar eru í hlutlausa aðila.

Ef Ísland gengur í ESB falla tollar niður á vörum sem pantaðar eru á netinu, innan ESB?

RÉTT! – og líka á þeim vörum sem við kaupum sjálf í útlöndum og komum með heim – sjá nánar á Evrópuvefnum hér.

ESB er með her og ef Ísland gengur inn þurfa börnin mín að ganga í hann?

Nei, langt í frá. ESB er ekki með her svo það er engin herskylda, sjá nánar hér.

Ef Ísland gengur í ESB, missum við þá sjálfstæðið?

Nei, enginn hefur fært rök fyrir því að þau 27 ríki Evrópusambandsins séu ekki sjálfstæði ríki. Allir alþjóðlegir samningar kalla á ákveðið framsal á valdi af hálfu þeirra sem kjósa að taka þátt í slíku samstarfi, en í dag tekur Ísland upp 75-80% af allri löggjöf sem ESB setur (og á við Ísland) í gegnum EES samninginn. En Ísland en á ekki sæti við borðið þar sem ákvarðaninar eru teknar og það myndi breytast við inngöngu í ESB þar sem íslenskir ráðamenn fengu sæti við öll borð þar sem teknar eru ákvarðanir. Sjá hér, nýlega skýrslu um fullveldi og EES samninginn í Noregi, þar sem fjallað er um hinn gríðalega lýðræðishalla sem felst í EES samningnum. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að Noregur hefur tekið upp meiri ESB löggjöf (um 75%) en sum aðildaríkjanna ESB!

ESB bannar bogna banana.

Ekki satt og hefur aldrei gert, ekki heldur bognar gúrkur – sjá svar á Evrópuvefnum hér.

Ef Ísland gengur í ESB lækkar kostnaður við húsnæðislánin?

Já, Rétt! Ný úttekt frá ASÍ sýnir fram á að við myndum greiða miklu lægri afborganir af lánunum okkar en við gerum í dag og í styttri tíma! Sjá frétt á mbl.is í febrúar um málið.  Í ESB þekkjast ekki verðtryggðlán líkt og hér.

 

ESB bannar veiðar á rjúpu.

Nei ekki satt. Það er undir hverju aðildarríki að ákveða slíkt – sjá svar á Evrópuvefnum hér.

ESB bannar börnum að leika sér með segulstál, leikfangavaraliti, partýflautur og blöðrur?

Nei, engar slíkar reglur, en ESB er með rosalega góðar reglur sem tryggja að leikföng sem seld eru í sambandinu séu örugg – sjá svar á Evrópuvefnum hér.

ESB bannar fullorðnum að fara með fleiri en tvö börn í sund í einu?!

NEI, nei, nei, bara della. Sjá svar hér

 

Ef við göngum í ESB, lækkar þá verð á matvælum?

Rétt! Við inngöngu Íslands í ESB falla niður tollar á vörum og landbúnaðarafurðum frá ríkjum ESB falla niður. Því má, samkvæmt nýrri skýrslu, gera ráð fyrir að verð á kjúklingum, eggjum og svínakjöti lækki um 40 -50%, og að verð á mjólkurafurðum lækki um 25%.

Sjá nánar hér.

ESB bannar Cheerios?

Nei, algjör vitleysa – sjá svar hér.

Ef Ísland gengur í ESB þurrkast bændastéttin út?

Nei, ekkert ESB ríki er án bænda. Áhrif aðildar á landbúnaðinn verður að öllum líkindum mismunandi eftir greinum. Helsta breytingin er sú að íslenskir bændur fengju styrki í gegnum ESB landbúnaðarkerfið en það íslenska. Með aðild eykst samkeppnin því þá verður innflutningur frá ESB ríkjunum á landbúnaðarafurðum gerð frjáls. Það þýðir að íslenskir bændur þurfa að standast þá samkeppni. Þó eru töluverðar líkur á að í aðildarsamningnum verði samið um sérstakar aðstæður íslenskt landbúnaðar eins og gert var t.d. í Finnlandi og víðar. Með aðild geta íslenskir sauðfjárbændur flutt sitt kjöt út óhindrað til ESB ríkjanna en á síðasta ári kláruðu þeir útflutningskvótann sitt mjög hratt og óskuðu sérstaklega eftir stærri útflutningskvóta til ESB – svo sóknarfærin eru ótæmandi. Þær greinar sem líkur eru á að gætu átt erfitt með að mæta aukinni samkeppni eru alifuglarækt og svínarækt, um þetta ber þó mönnum ekki saman.

Hér má sjá nokkur svör um landbúnað á Evrópuvefnum.

Ef við göngum í ESB, fyllist hér þá allt af erlendum togurum sem þurrka upp fiskimiðin okkar?

Nei. Innan Evrópusambandsins byggist úthlutun veiðiheimilda á veiðireynslu árin fyrir aðild. Ekkert ríkja ESB hefur hefur veiðireynslu á miðunum umhverfis Ísland undanfarna þrjá áratugi. Þetta þýðir að Ísland mun eftir aðild að ESB sem fyrr fara með allan kvóta í íslenskri lögsögu. Til þess að svo verði þarf enga undanþágu. Samkvæmt reglum ESB á aðeins Ísland rétt á kvóta á miðunum umhverfis Ísland.

Sjá nánar um áhrif aðildar á sjávarútveginn hér.

höfundur: Bryndís Ísfold


Krónulaust Ísland eftir 5 ár

brotisturvidjumisk.jpgOpinn fundur um afnám krónunnar.


- Leiðin að upptöku evrunnar
Vilhjálmur Þorsteinsson, frumkvöðull og fjárfestir

- Hvað kostar krónan íslensk heimili
Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ

Umræður og fyrirspurnir.

Fundastjóri: Margrét Arnardóttir, verkfræðingur

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn næsta, þann 23. febrúar kl 20.00 - 21.30, að Skipholti 50 A, 2. hæð.

Allir velkomnir.

Já Ísland

 


Jóla-pubquiz og Helga Möller á skemmtikvöldi evrópusinna

jolagledi21 Á fimmtudaginn næsta þann 24. nóvember ætla Evrópusinnar að halda jólapubquiz á Kaffi Sólon 2. hæð – enda fyrsti í aðventu rétt handan við hornið. Spurningar eru um allt á milli jóla og Evrópu og er bjórkassi í vinning.

Ske-maðurinn frækni og þingmaðurinn óháði Guðmundur Steingrímsson verður spyrill.

Til að hita okkur upp fyrir jólin kemur hin eina sanna drottning jólalaganna Helga Möller og syngur fyrir okkur nokkur lög. Hér má sjá viðburðinn á Facebook.

Sem sagt, jólapubquiz, Helga Möller, jólabjór, piparkökur og evrópusinnar.

Getur hreinlega ekki klikkað.

Bjór á tilboði!

Allir Evrópusinnar velkomnir.

Sjáumst.

Nefndin

Upphitnun:


Vissir þú þetta?

 

New-Picture

New-Picture-1


Við erum að tala um framtíðina - þína!


Ellefu ,,landráðsmenn" í reykfylltu bakherbergi

Enn yngri Evrópusinni! Félag Ungra Evrópusinna hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

Síðastliðið þriðjudagskvöld hittust ellefu ungir „landráðsmenn“ í reykfylltu bakherbergi í Skipholti. Lögðu þau þar fram ný drög að afnámi sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar, því það er eindreginn vilji þessara föðurlandssvikara að Ísland skipi sér senn í flokk ósjálfstæðra og ófullvalda ríkja á borð við Danmörku, Svíþjóð, Þýskaland, Bretland og Frakkland, auk annarra aðildarríkja Evrópusambandsins.

Hópurinn hefur það reyndar einnig að markmiði að tryggja íslenskum þegnum aukið frelsi í ferðalögum, viðskiptum og verslun, sem og stuðla að lægra vöruverði, ódýrari skólagjöldum erlendis og bjartri framtíðarsýn í samvinnu við nágrannaríki Íslands í gegnum aðild Íslands að ESB.

Félagið heitir Ungir Evrópusinnar og er nýkjörinn formaður Dagbjört Hákonardóttir. Aðrir í stjórn eru:

Varaformaður: Freyja Steingrímsdóttir
Ritstjóri: Elís Rúnarsson
Gjaldkeri: Örvar Rafnsson
Ritari: Stefán Rafn Sigurbjörnsson
Meðstjórnandi: Auður Geirsdóttir
Meðstjórnandi: Bjarni Þór Pétursson
Meðstjórnandi: Brynhildur Bolladóttir
Meðstjórnandi: Guðrún Sóley Gestsdóttir
Meðstjórnandi: Hörður Unnsteinsson
Meðstjórnandi: Natan Kolbeinsson

 


Fögur er hlíðin - skyldulesning fyrir alla!

Guðmundur Gunnarsson hjá Rafiðnaðarsambandinu og stjórnlagaráðsmaðurGuðmundur Gunnarsson skrifar þessa áhugaverðu grein á bloggið sitt. Gaman væri ef hægt væri fyrir almenna umræðu á Íslandi um Evrópusambandið að gera þessa grein að skyldulesningu fyrir alla- en við mælum sterklega með henni!

 Fögur er hlíðin

"Fögur er hlíðin svo að mér hefur hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, mun ég ríða heim og fara hvergi." Svo mælti Gunnar á Hlíðarenda, hann vissi hvaða örlög biðu hans en hann kaus frekar að líta tilbaka en horfa fram á veginn. Bróðir hans Kolskeggur Hámundarson horfði fram á veginn og fór utan, en sagði við það tækifæri að hann væri ekki slíkt lítilmenni að ganga á bak orða sinna. Kolskeggur hélt síðan til núverandi ESB landa, með viðkomu í Noregi, þaðan til Danmerkur og var þar með Sveini konungi tjúguskegg og þaðan til Miklagarðs. Þar giftist hann og kristnaðist og var væringjaforingi. Hann bjó í Miklagarði til dauðadags.

Einangrunarstefna og þjóðremba er einkenni málflutnings þeirra sem berjast gegn því að kannað verði til hlítar hvað íslendingum standi til boða gangi þeir í ESB. Þar birtist okkur forsjárhyggja og lokað samfélag sem beitir öllum brögðum til þess að verja hagsmuni valdastéttarinnar á kostnað launamanna. Drýldin sjálfumgleðin og þjóðremban einkennir málflutninginn. Aldrei horft fram á veginn, sífellt horft til fortíðar og sagan endurrituð svo hún nýtist málflutning þeirra.

Styrkjakerfi íslensks landbúnaðar snýst um mjólkurframleiðslu og lambakjöt. Bændasamtökin sjá um þá gagnagrunna sem ráða hvert styrkir fara og það er það sem verður að breyta göngum við í ESB. Reyndar verðum við að breyta til þess að fylgja eðlilegum reglum. Stærsti hluti verðmyndunar í lambakjöti fer fram í milliliðunum, bændur eru láglaunastétt. Verð á lambakjöti skiptist um það bil til helminga, við borgum helming í búðinni og hinn helminginn í gegnum skatta.

Þrátt fyrir að forsvarsmenn bændasamtakanna beiti fyrir sig þeirri fullyrðingu að þeir berjist fyrir því að vernda dreifbýlið og búsetu í landinu, fer mjólkurbúum fækkandi, nú er verið að leggja af mjólkurframleiðslu á Vestfjörðum. Bændabýlum fækkar sífellt, en þau sem eftir standa verða stærri og reyndar skuldugri.

Íslenskur landbúnaður stefnir í nákvæmlega sömu átt og íslenskur sjávarútvegurinn hefur farið, skuldsett upp fyrir rjáfrið. Íslendingar eiga enga dreifbýlisstefnu, en hún er til hjá ESB. Fjárfestar kaupa sífellt fleiri jarðir og bændabýlin eru að verða það stór að hinir raunverulegu eigendur eru bankarnir, engin hefur efni á því að byrja í búskap. Hér vantar samskonar lög og eru innan ESB að það land sem búið er brjóta undir landbúnað skuli nýtt áfram til landbúnaðar.

Alþingi samþykkti að hefja aðildarviðræður við ESB og 2/3 þjóðarinnar vill að þeim viðræðum verði lokið og niðurstaðan borin undir þjóðina. Þetta óttast embættismenn hjá samtökum bænda og samtökum afurðarsala, þeir fara hamförum gegn vilja þjóðarinnar og samþykktum Alþingis. Í þessu sambandi má rifja upp ummæli þeirra bræðra Hámundarsona.

Finnska leiðin eftir samninga við ESB beinir styrkjum til bænda, ekki kerfisins og milliliðanna eins gert er hér á landi, það var einmitt ástæðan fyrir því að Finnar gengu í ESB. Ef við færum þá leið myndi aðstoð við búsetu vaxa og beinir styrkir til bænda hækka umtalsvert. Það er nákvæmlega það sem embættismannakerfi framangreindra hagsmunasamtakanna berst gegn og óttast komi upp ef við göngum í ESB. En það blasir við jafnvel þó við göngum ekki í ESB, verðum við að taka upp samskonar kerfi og Finnar tóku upp.

Ég heimsótti sláturhús í síðustu viku. Þar unnu tæplega 100 manns, nánast allt erlent fólk. Þar voru þeir lambaskrokkar sem átti að senda út einungis grófsagaðir svo það sé hagkvæmara að flytja kjötið út. Öll vinna við kjötið fer síðan fram innan ESB og í mörgum tilfellum hjá fyrirtækjum sem eru í eigu íslendinga.

Sama á við um fiskinn, íslendingar eiga verksmiðjur sem fullvinna íslenska fiskinn. Í þessum verksmiðjum vinna þúsundir launamanna innan ESB. Íslendingarnir senda síðan einungis heim með þann hluta erlends gjaldeyris sem starfsemin gefur af sér sem dugar til þess að greiða kostnað hér heima, allt annað verður eftir úti. Þetta er afleiðing þess að við erum með krónuna sem kallar á vernd í skjóli gjaldeyrishafta.

Þetta myndi gjörbreytast ef við gengjum inn í ESB, þá gætum við flutt öll þessi störf heim og allur arður myndi skila sér inn í íslenskt samfélag, hér um að ræða nokkur þúsund störf, sem öll gætu verið góð undirstaða í öflugri byggða þróun. Hvers vegna velja íslendingar frekar að vera á bótum en vinna í landbúnaði og fiskvinnslu? Hvers vegna eru kjör bænda svona slök? Hvert fara allir þeir milljarðar sem renna í gegnum styrkjakerfi landbúnaðarins? Það eru sífellt færri sem vinna í þessum greinum og launin eru mjög slök.

Ef við skoðun starfsgeira rafiðnaðarmanna, þá hefur þróunin verið þannig að undanfarin 30 ár hefur engin fjölgun rafiðnaðarmanna verið í orkugeiranum, um 300 rafiðnaðarmenn starfað í þeim geira síðan 1980. Sama á við um í landbúnað og fiskvinnslu þar hafa einnig verið að störfum þennan tíma um 300 rafiðnaðarmenn og sama á við um byggingar- og verktakageirann þar hafa verið um 500 – 800 rafvirkjar og það er í þessum geira sem allt atvinnuleysi rafvirkja er.

Á sama tíma hefur rafiðnaðarmönnum fjölgað úr 2.000 í tæplega 6.000 öll fjölgunin hefur verið í tækni og þjónustustörfum. Í dag hefur rafiðnaðarmönnum í Íslandi fækkað um 1.000 frá Hruni. Íslensk tæknifyrirtæki er flest farinn að gera allt upp í Evrum og mörg hafa flutt stöðvar sínar erlendis. Þau hafa sagt að ef Ísland gengi í ESB gætu þeir flutt heim um 3.000 störf á stuttum tíma.

Tæknifyrirtækin sem hafa verið að bjóða upp á mest spennandi störfin ásamt því að þar hefur öll fjölgum starfa verið, eru að flytja sig til ESB. Þau eru alfarið háð góðum viðskiptatengslum við ESB svæðið, góðum lánamarkaði og ekki síður hlutabréfamarkaði.Við rafiðnaðarmönnum blasir stöðnun í starfsframa hér heima. Í nýlegum könnunum kom fram að 85% ungs fólks sér ekki framtíð sína hér á landi. Ungt og velmenntað fólk menn vilja hafa möguleika til þess að viðhalda menntun og aðgang að tækifærum í vali á góðum störfum.


Enga merkimiða takk

Páll Ásgeir Ásgeirsson Laugardaginn 10. September stóð Já Ísland fyrir opnum umræðufundi um Evrópusambandið og umhverfismálin. Einn af frummælendum fundarins var Páll Ásgeir Ásgeirsson, rithöfundur og leiðsögumaður. Erindi Páls vakti mikla athygli meðal fundargesta og þótti stórskemmtilegt. Í erindi sínu fjallar Páll jafnt um óhóflega notkun merkimiða meðal andstæðinga aðildar jafnt og stuðningsmanna, sem og óttann við það að innganga Íslands í Evrópusambandið muni gera út um allt sem við teljum sér íslenskt og einstakt.

Hér má horfa á upptöku af þessu skemmtilega erindi Páls Ásgeirs – eða lesa erindið hér:

 Erindi Páls Ásgeirs.

 

Sennilega væri rétt að hefja þennan ræðustúf á því að skýra út fyrirsögn hans.  Hvað á ég við með fyrirsögninni: Enga merkimiða takk.

Umræðan um það hvort Ísland eigi að sækja um inngöngu í Evrópubandalagið hefur einkennst af óhóflegri notkun merkimiða. Jafnvel svo að segja mætti að þeir væru eitt helsta vopn manna í þeirri orðræðu sem fram fer. Þegar einhver sér jákvæða fleti eða kosti góða við inngöngu reyna andstæðingar sem ákafast að þekja hann í merkimiðum sem á standa orð eins og: senditík frá Brussel, landráðamaður eða landsölumaður. Hið sama gerist oft þegar einhver fullyrðir að algerlega ómögulegt sé að sækjast eftir þeirri sömu inngöngu. Þá standa á merkimiðunum orð eins og: afturhaldsseggur, þröngsýnn eyjarskeggi, torfkofabúi eða músarholusjónarmið

Þetta er fært í tal hér því þótt ég standi í ræðustól hér undir merkjum samtaka sem kalla sig Já Ísland þá er ekki víst að enn liggi fyrir hvorn veg mitt atkvæði fellur í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég vonandi fæ að taka þátt í um þetta merka mál. Þess vegna frábið ég mér alla merkimiða vegna þess sem ég hyggst segja hér í dag.

Margir hafa orðið til þess að orða ótta sinn við það að þegar og ef Íslendingar fá inngöngu í Evrópusambandið sé hætta á að ýmislegt af því sem við teljum sér íslenskt og einstakt í sinni röð muni glatast í iðukasti menningarstrauma og fjölbreyttrar samkeppni. Þetta er umhugsunarefni því eitt af því sem sameinar okkur öll er líklega löngun og vilji til þess að varðveita allt það sem gerir okkur að Íslendingum.  Lítum á nokkur dæmi um hvernig okkur einum og óstuddum hefur tekist nákvæmlega þetta fjarri heimsins glaumi við ysta haf.

Danski málfræðingurinn Rasmus Christian Rask dvaldi á Íslandi 1813-1815 og tók þátt í stofnun Hins íslenska bókmenntafélags árið 1816 og var formaður þess í fyrstu. Hann átti mikinn þátt í mótun þeirrar málhreinsunarstefnu sem Fjölnismenn fylgdu síðan af miklum krafti. Sú endurreisn íslenskrar tungu sem í þeirri baráttu varð einn af hornsteinum sjálfstæðisbaráttu íslenskra átti án efa ríkan þátt í að bjarga íslenskri tungu frá hnignun og hugsanlegum útdauða. Rask átti þannig ríkan þátt í að bjarga íslensku máli frá útdauða í meðförum  einu þjóðarinnar sem talaði málið.

Var ég búinn að segja að hann var danskur.

 

Mark Watson var breskur aðalsmaður sem árið 1956 gaf út bók sem heitir: The Iceland Dog 847-1956. Hann var mikill Íslandsvinur og ferðaðist víða og hreifst af landi og þjóð. Hann áttaði sig á því á ferðum sínum um Ísland að íslenskt hundakyn var fágætt en í mikilli útrýmingarhættu. Hann keypti íslenska hunda og ræktaði hunda á búgarði sínum erlendis, vakti athygli heimamanna á því hvernig komið væri fyrir stofninum. Þannig bjargaði Watson íslenska hundinum frá útrýmingu í höndum okkar.
Halda mætti langa ræðu um góðar gjafir Watsons til þess að varðveita íslensk menningarverðmæti, bókagjafir til Landsbókasafns og dýraspítalann í Víðidal þótt það verði ekki gert hér. Watson- eða dear Watson eins og kannski væri réttara að kalla hann á það samt sameiginlegt með Rask að hann áttaði sig á því að í höndum Íslendinga voru verðmæti við það að glatast og greip til sinna ráða.

Var ég búinn að segja að hann var breskur?

 

Peter Scott eða Sir Peter Scott var einn að merkustu fuglafræðingum og náttúruverndarmönnum Bretlands á tuttugustu öld. Hann var einn af frumkvöðlum í stofnun griðlanda fyrir fugla af margvíslegu tagi og beitti sér fyrir verndun votlendis löngu áður en mönnum varð ljóst gildi þessháttar svæða fyrir fugla og lífríki auk þess að vera einn af stofnendum World Wildlife Fund.

Scott átti ríkan þátt í því að koma hreyfingu á umræðu um náttúruvernd á Íslandi upp úr miðri tuttugustu öld. Hann vann merkar rannsóknir í Þjórsárverum og opnaði augu Íslendinga fyrir því hve svæðið væri dýrmætt og einstakt á mælikvarða heimsins alls sem eitt helsta heimkynni heiðagæsarinnar. Hann beitti sér fyrir stofnun þjóðgarðsins í Skaftafelli en World Wildlife Fund lagði stórfé til stofnunar hans fyrir tilstilli Sir Peters.
Um það leyti sem Finnur Guðmundsson fuglafræðingur og Peter Scott byrjuðu að ösla um votlendið í Þjórsárverum og skyggna gæsir á flótta hefur sennilega enginn Íslendingur gert sér grein fyrir því hvaða verðmæti voru fólgin þarna í fenjum og álum jökulvatna og lundum angandi gróðurs.
Svangir Íslendingar höfðu um aldir farið ríðandi að flokkum ófleygra gæsa og smalað þeim í réttir sem enn standa inni í Þjórsárverum og bera sjálfsbjargarviðleitni forfeðra okkar og veiðimennsku fagurt vitni. Í augum okkar um aldir voru Þjórsárver því matarkista líkt og gjöful veiðislóð og enginn leiddi hugann að því að þau byggju yfir einhverjum verðmætum umfram það fyrr en Peter Scott opnaði gluggann og veitti ljósinu inn.

Var ég búinn að segja að hann var breskur?

 

Þessir þrír menn eiga það sameiginlegt að hafa hjálpað íslenskri þjóð til þess að bjarga frá útrýmingu eða stórskaða þremur ólíkum hlutum sem þó eiga það sameiginlegt að vera eins íslenskir og hægt er að vera. Í varðveislu og meðförum íslensku þjóðarinnar sjálfrar voru þessir þrír ómetanlegu hlutir hætt komnir og ætti að segja þetta í afar stuttu máli þá hefðum við tapað tungumálinu, íslenski hundurinn hefði dáið út og Þjórárverum líklega verið sökkt hefðu þessir góðviljuðu gestir ekki lagt okkur lið og beint okkur á rétta braut.

Af þessu mætti vel draga þá ályktun að einangrun og einráð heimamanna séu ekki endilega alltaf bestu aðferðirnar til þess að varðveita hrein og ómenguð þau verðmæti sem hvað íslenskust eru talin á hverjum tíma og brýnast að varðveita.

En kannski má fyrirgefa þjóð sem lengi fram á tuttugustu öld var of önnum kafin við að komast í sæmilega upphitað húsnæði, fá nóg að borða og þurrt á fæturna til þess sinna náttúruvernd. Sá sem elst upp við dýrð íslenskrar náttúru fyrir augum sér alla ævi frá morgni til kvölds sér kannski ekki þá sömu fegurð eins vel og sá sem lengra er að kominn. Ekki síst ef hann er alltaf kaldur, svangur og blautur í fæturnar. Þess vegna þurftum við hin glöggu gestsaugu til þess að opna okkar eigin fyrir þeim verðmætum sem lágu

Íslendingar voru einna seinastir Evrópuþjóða til þess að taka upp náttúruverndarlöggjöf og langsíðastir Norðurlandaþjóða, tæpum 50 árum á eftir Svíum og Norðmönnum, 39 árum á eftir Dönum og 33 árum á eftir Finnum.

Nú væri hins vegar freistandi að halda að sú þjóð sem á mótum 20 og 21 aldar telur sig meðal ríkustu þjóða heims mælt  fjölda fermetra á mann, bíla per fjölskyldu, rúmtak ísskáps eða flatarmál skerms miðað við höfðatölu hefði með allsnægtum fengið nýjan og skarpari skilning á þeim verðmætum sem hún þrátt fyrir allt á í landsins öræfum, fallvötnum, mýrum og mosaflám.

Nú er hægt að nota ýmsar viðmiðanir til þess að mæla árangur á þessu sviði og við skulum taka eitt dæmi af handahófi. Íslendingar eru aðilar að Ramsarsáttmálanum um friðlýsingu votlendissvæða sem athvarf fyrir vaðfugla. Ísland gerðist aðili að samningnum 1977 en hann varð til 1971. Til skamms tíma voru svonefnd Ramsarsvæði á Íslandi aðeins þrjú en það eru Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnifjörður við Akranes. Nýlega voru svo Guðlaugstungur og Eyjabakkar tilnefnd sem Ramsarsvæði og unnið er að því að votlendi í Andakíl fái tilnefningu sem sjötta Ramsarsvæðið á Íslandi en fjölmörg svæði á Íslandi myndu uppfylla þau skilyrði sem lögð eru til grundvallar til friðun. Þannig hefur fjöldi þessara svæða á Íslandi tvöfaldast á tiltölulega skömmum tíma sem er vel.

Til samanburðar má nefna að Ramsarsvæði í Danmörku eru 38 en Danmörk gerðist aðili ári seinna en Ísland. Eistland gerðist aðili 1994 og þar eru nú 13 Ramsarsvæði. Líbería sem er eitt af fátækustu ríkjum Afríku gerðist aðili að Ramsarsamningnum 2003 og þar eru 5 Ramsarsvæði.

Samtals eru 1950 svæði kennd við Ramsar í heiminum.

 

Lengi vel voru Íslendingar ein þriggja Evrópuþjóða sem ekki hafði staðfest Árósasamninginn svokallaða. Samningnum er ætlað að styrkja þrjár lýðræðislegar meginreglur; í fyrsta lagi rétt til upplýsinga, í öðru lagi rétt almennings til að taka þátt í ákvarðanatöku og í þriðja lagi rétt til að bera fram kæru og fá úrskurð dómstóla eða nefndar. Samningurinn gildir eingöngu um ákvarðanir sem hafa þýðingu fyrir náttúru og umhverfi. Með staðfestingu samningsins stíga Íslendingar enn eitt hænufet inn í samfélag siðaðra manna þótt þeir gangi þar óneitanlega aftar í röðinni en margur hefði viljað.

Þannig virðist áhugi okkar á náttúruvernd ekki hafa aukist þótt við séum orðin rík af þessa heims gæðum.

Íslendingar eiga enn í dag dýra fjársjóði sem fólgnir eru í ósnertum náttúruundrum þessa lands. Við eigum víðerni þar sem maðurinn hefur enn ekki sett nein spor að ráði og við eigum fossa og fallvötn sem enn fá að hljóma eins í eyrum okkar eins og þeirra manna sem fyrstir komu til Íslands. Við eigum gríðarlega fjölbreytta náttúru sem er einstök í heiminum því þótt hvert og eitt atriði, hver og einn þráður í hinum glitrandi vef eigi sér ef til vill hliðstæðu einhvers staðar í stórum heimi þá er fágætt að finna svo mörg sérkenni saman aðgengileg ferðamönnum eins og hér á landi.

Við eigum flæðandi lindir af tæru og góðu uppsprettuvatni sem víðast hvar er óhætt að drekka beint úr straumnum án þess að hafa áhyggjur af því að heilsu manns sé stefnt í voða.  Við þessi fámenna þjóð í þessu víðfeðma landi er vellauðug af náttúrugæðum, svo rík að margt af því sem öðrum þjóðum finnst að ekki verði metið til fjár teljum við sjálfsagðan hlut.

Stöðugt fleiri íbúar heimsins líta á ósnerta náttúru sem auðlind sem heimurinn eigi í raun og veru í sameign og það sé skylda hverrar þjóðar að gæta sinna gimsteina fyrir hönd veraldarinnar allrar og hinna ófæddu kynslóða. Dýrmætin í óbyggðum Íslands, víðáttan, þögnin og fegurð hrjóstrugrar náttúru eru minnkandi auðlind í heimi þar sem sífellt fleiri þurfa mat og land og rými til að lifa af.
Hér á undan hefur verið rakið að viðhorf og hugsunarháttur Íslendinga í verndun náttúrunnar og góðrar umgengni um auðlindir hennar hefur í margvíslegum samanburði verið fáeinum áratugum á eftir öðrum þjóðum.

Þegar maður rausar í þessum tón þá verða margir til þess að sussa og vilja ekki heyra svona svartagallsraus og heimsósóma og stundum er reynt að hugga mann með því að hinn gamalkunni áskítugumskónum vaðandi yfir allt hugsunarháttur sé horfinn og nú séu allir sannir framfaramenn meðvitaðir og trjáfaðmandi náttúruvinir sem aldrei myndu hrófla við steini nema með fullum skilningi á afleiðingum þess að steininum væri velt.

Því miður er þetta ekki rétt.

 

Margir – alltof margir -Íslendingar líta á náttúruna sem eitthvað sem manninum beri skylda til þess að brjóta á bak aftur, leggja undir sig, nytja og rækta, virkja og vinna -og leggja í rúst um leið.
Í skammvinnri sögu hins iðnvædda Íslands blasa við okkur alltof mörg dæmi um skammsýni og græðgi þar sem ómetanlegum náttúruperlum hefur verið fórnað og þær eyðilagðar í nafni hagvaxtar og framfara, stundargróða . Ég þarf ekki að nema rétt að þylja nöfn eins og Kárahnjúkar, Töfrafoss, Tröllkonuhlaup, Þeistareykir, Gljúfurleit, Fagrifoss, Hágöngur til þess að nefna örfá dæmi um náttúruundur sem nú eru annað hvort horfin eða aðeins svipur hjá sjón eftir meðferð og uppbyggingu duglegra manna. Sennilega hefur ekkert unnið eins mikið tjón á íslenskri náttúru eins og duglegir menn.

Kannski hefur  náttúran í hugum of margra Íslendinga nútímans svipaða stöðu og íslensk tunga á tímum Rasks, íslenski hundurinn á tímum Watsons og Þjórsárver um það leyti sem Peter Scott kom og leiddi okkur inn í ljósið.

Við þurfum á leiðsögn og samstarfi annarra þjóða að halda til þess að auka skilning á umhverfisvernd og náttúrunni svo okkur takist að koma fjársjóðum okkar óbrotnum til næstu kynslóða svo þær fái notið þeirra eins og við höfum gert frá landnámi.
Náttúran er það dýrmætasta sem við eigum en við eigum hana ekki ein heldur með öllum heiminum og við eigum að þiggja alla þá hjálp sem í boði er til þess að tröllin brjóti ekki þetta fjöregg okkar allra.

Hér hefur áður verið minnst á merkimiða. Við viljum ekki sjá merkimiða á íslenskri náttúru þar sem standa orð eins og: lægsta orkuverð í heimi- Aðgangur bannaður–aðeins fyrir starfsmenn Landsvirkjunar og Ístaks. Það er aðeins einn merkimiði sem er leyfilegur á náttúru Íslands og á honum stendur: Brothætt.

Þakka þeim sem hlýddu.

 


Loftið, sólin, sjórinn og fjöllin – hvað gerir ESB fyrir umhverfismálin?

umhverfismal_minna.jpg

Laugardaginn 10. september verður haldinn umræðufundur um Evrópusambandið og umhverfismál í Iðnó.  Meðal ræðumanna er umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir.

Fundurinn hefst stundvíslega kl 11 og lýkur kl 13.

Allir eru velkomnir

Dagskrá fundarins:

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndasamtaka Íslands
,,Hvaða erindi á Ísland í ESB?"

Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra
um umhverfisstefnu Evrópusambandsins

Páll Ásgeir Ásgeirsson, rithöfundur og leiðsögumaður.
,,Enga merkimiða takk"

Fundastjóri
Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandasamstarfs Vinstri - Grænna flokka.

Viðburðurinn á Facebook. 


"Loksins alvöru gjaldmiðill, festa fyrir heimilin, ríkið og fyrirtækin í landinu"

 TallinnPáll Stefánsson ritstjóri Iceland Review var viðstaddur glæsilega sjálfstæðisafmælishátíð Eista fyrr í mánuðinum í Tallinn.  Í grein í Fréttablaðinu í dag lýsir hann samtölum sínum við Eista á hátíðinni um sjálfstæði þeirra og hvernig það færi saman við veru þeirra í ESB. En eins og allir vita hafa andstæðingar ESB hér á landi lýst því yfir að ef við myndum ganga inn í ESB myndum við missa sjálfstæði okkar?!

Reynsla Eista er allt önnur en spádómar andstæðinga hér á landi boða. Eins og kemur skýrt fram í grein Páls : 

Og fullveldið, sjálfstæðið er þeim ALLT. Þess vegna skildu þeir ekki spurningu mína um hvort vera þeirra í Evrópusambandinu skerði ekki þeirra nýfundna frelsi.

„Nei, veran í Evrópusambandinu er trygging fyrir því að við erum þjóð meðal þjóða. Það er hlustað á okkur, og við erum hluti af ákvarðanatöku og regluverki þjóða Evrópu.“

Það eru bara rúmir sjö mánuðir síðan þeir tóku upp evru. Sem hefur strax skilað sér í 18% aukningu á erlendum fjárfestingum í landinu.

„Nú erum við loksins með alvöru gjaldmiðil, sem býr til festu fyrir heimilin, ríkið og fyrirtækin í landinu.“

 

 Greinin í heild sinni á Visir.is

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband